fimmtudagur, júlí 27

Önnur skiptin yfirstaðin


Nú eru hjólin farin að snúast. Í gær barst mér tilboð í tvö fullgötuð kaffikort frá Café Roma sem ég gat ekki hafnað. Ásgeir Ólafsson, tæknifræðingur bauð mér að fá í staðin glæsilegt stál-hitamál merkt SINDRA. Ásgeir hefur átt þetta mál í nokkurn tíma en átti ekkert kaffi í það. Ég tók tilboðinu snögglega og við hittumst í gærkvöldi til að ganga formlega frá skiptunum.

Hitamálið er hið gerðarlegasta, tekur um 0.4l af vökva og er þeim eiginleika gætt að halda vökvanum heitum eða köldum mun lengur en í venjulegu glasi. Málinu fylgir lok með drykkjaropi til að hámarka hita/kulda temprun og sterklegt handfang til að auðvelda aðkomu málsins að munni.
Það gefur auga leið að notkunarmöguleikarnir á þessu máli eru óendanlegir. Hægt er að: fylla málið af kaffi og sötra lengi á því í vinnunni við yfirferð trúnaðarskjala, taka það með í göngu yfir Fimmvörðuháls og drekka kakó úr því þegar komið er í Þórsmörk, hella frískandi svaladrykk í það til að kæla sig niður eftir sólbað á Austurvelli (ef það verða fleiri sólardagar í sumar!!!), gefa málið í afmælis- eða brúðkaupsgjöf eða blanda sér hrærðan en ekki hristan martini eftir erfiðan vinnudag án þess að konan sjái hvað þú sért að drekka.

Ég vil því að gefnu tilefni taka það fram að þetta er ekkert grín. Ég mun stefna ótrauður að því markmiði sem ég hef sett. Ég hef rétt um ár til stefnu til þess að takast þetta og ég skal... Ég meina'ða, hver hefur ekki not fyrir stál-hitamál?

Hver vill skipta?

miðvikudagur, júlí 26

Fyrsta skiptið

Fyrstu formlegu skiptin hafa nú farið fram. Það var Hörður Lárusson, grafískur hönnuður sem bauð mér tilboð sem ég gat ekki hafnað. Í skiptum við litla hestalyklakippu bauð hann mér tvö fullgötuð kaffikort úr Roma Café. Hvort kortið jafngildir kaffidrykk að eigin vali á þessu kaffihúsi. Ég var að sjálfsögðu himinn lifandi yfir þessu kostaboði. Ég fór til hans í gær og við skiptumst formlega á hlutum með handabandi og myndartöku.

Ég hefði sjálfur ekkert á móti að kíkja á kaffihús með konunni og sötra á kaffi latte en ég verð að halda áfram ótrauður að markinu og hef ég því nú í boði tvö fullgötuð kaffikort til skiptanna.

Roma Café er huggulegt kaffihús og bakarí á Rauðarárstíg 8 og í Kringlunni gengt Eymundsson. Það liggur ljóst við að tveir kaffidrykkir að eigin vali geta komið sér vel og óhætt að segja að möguleikarnir séu endalausir. Maður gæti: farið snemma að morgni eftir svefnlitla nótt og skellt í sig tveimur tvöföldum esspresso, komið sér fyrir heila kvöldstund og lesið "Grámosinn Glóir" eftir Thor Vilhjálmsson yfir Amaretto, boðið yndislega hjartaknúsaranum/beibinu sem þú ert búin(n) að vera skotin(n) í svo lengi upp á Frappuccino og eitthvað skemmtilegt á eftir, hringt í Þingmanninn þinn og boðið honum að ræða bæjarpólitíkina yfir Irish Coffee eða gefið kortin í afmælis- eða brúðkaupsgjöf. Þeir eru fáir sem myndu hafna góðu kaffiboði.

Hver vill skipta?

þriðjudagur, júlí 25

Íslensk skipti

Hafið þið heyrt um manninn sem byrjaði með eina rauð bréfaklemmu, fór svo og skipti við fólk og endaði með einbýlishús í Canada?

Þetta hljómar eins og lélegur brandari, en þetta er dagsönn saga. Kíkið á http://oneredpaperclip.blogspot.com/. Frekar magnað.

Þessi ótrúlegi maður, Kyle MacDonald, fékk þessa brjálæðislegu hugmynd og lét vaða. Hann segir hugmyndina koma frá því hann var lítill þegar hann og vinir hans léku áþekkan leik.

Maður getur ekki annað en dáðst að svona mönnum og harmað það að maður sé ekki svona mikill snillingur. Í kjölfar umfjöllunar um skiptileik MacDonalds viðsvegar um heim hefur bylgja skiptileikja farið yfir fjölmörg lönd í heiminum. MacDonald sjálfur kvetur alla sem rönd geta reyst að reyna eigin útgáfur af þessu nýasta æði.Ég hef áveðið að fylgja fordæmi þessa snillings.

Þar sem Ísland er örlítið minni markaður en Bandaríkin hef ég ákveðið að byrja með mun veglegri hlut en bréfaklemmu og setja markmiðið aðeins lægra.

Svona virkar skiptileikurinn í stuttu máli:

Ég býð fram ákveðinn hlut. Einhver sem hefur áhuga á hlutnum býður mér annan hlut sem er álíka verðmætur eða verðmætur. Það skal tekið fram að verðmætamat er snúinn hlutur. Það sem er drasl fyrir einum er fjársjóður fyrir öðrum. Þegar fæ sent tilboð sem mér lýst vel á hef ég samband við viðkomandi og mælir mér mót við hann. Öll skipti skulu fara fram í eigin persónu og verða framkvæmd með formlegu handabandi og myndatöku. Síðan mun ég bjóða nýja hlutinn til skipta þangað til ég fæ gott tilboð og þannig koll af kolli.

Hluturinn sem ég hef ákveðið að bjóða fram er glæsilegur, svo til ónotaður lyklakippuhringur. Á honum er mynd af íslenskum hesti og skrifað "Ísland" og "Hestur" bæði á þýsku og ensku. Þessi lyklakippa er tilvalinn til að geyma húslykla, bíllykla, hjólalykla, kamarlykla eða vera til skrauts á fatnaði, veggjum eða borðskreitingum. Lyklakippuna væri einnig hægt að gefa útlenskum ferðamönnum, vinum, ættingjum, til góðgerðarmála, í brúðkaupsgjafir eða af hvaða tilefni sem er.

Markmið mitt er að skipta þangað til ég enda með flug og bíl ferð (fyrir 2 fullorðna og 1 barn) til Þýskalands. Af hverju flugferð til Þýskalands spyrja sumir. Jú, ég er líklegast sá eini í fjölskyldu minni sem ekki hef farið í heimsókn til systur minnar sem er búsett þar. Hún hefur búið í Freiburg lengi, en nú styttist óðum í að hún flytji heim. Allar mínar tilraunir og vonir til að komast út hafa ekki gengið eftir. Nú þarf ég að taka til minnar ráða til þess að láta þessa ósk mína rætast.

Hver vill byrja að skipta við mig?