laugardagur, desember 9

Skiptileikurinn í Helgarblaði DV


Það er viðtal við mig og umfjöllun um skiptileikinn í nýjasta helgarblaði DV. Hún er á næst öftustu síðu. Þetta er ágætis umfjöllun og kemur helstu aðalatriðum á framfæri. Eini gallinn er að myndast ekkert sérstaklega vel, þarna á bak við öndina... en hún er nú líka algjör senuþjófur.

Þeir sem vilja fræðast betur um tilgang og markmið skiptileiksins er bent á að lesa fyrstu færslurnar hér á síðunni.


Það er einnig hægt að smella á myndirnar hér til hliðar til að skoða betur skiptin sem farið hafa fram.


Ég vil leggja áherslu á að eins manns dót er annars manns gull. Hver kannast ekki við að eiga fulla geymslu og kjallara af allskonar gagnlegum hlutum sem liggja þar ónotaðir. Ef þig langar að eiga uppstoppaða straumönd, að gefa fuglaáhugamanni fullkomna jólapakkann eða vantar skemmtilega brúðkaupsgjöf skaltu líta í kringum þig og senda mér síðan gott tilboð.

föstudagur, desember 1

Fjórðu skiptin

Í dag lét ég London klukkuna af hendi fyrir einstakan grip. Gísli Hvanndal skellti sér í bíltúr frá Ólafsfirði til þess að skipta við mig. Honum fannst þetta svo bráðfyndin og skemmtilega hugmynd og vildi endilega taka þátt í þessu.Hann færði mér stórglæsilega uppstoppaða Straumönd sem stendur stolt á steini. Þetta er hinn myndarlegasti gripur, algjörlega einstakur, enda gerður úr einstöku dýri. Öndin gerði strax mikla lukku hjá litla stráknum mínum, enda er þetta líklegast fyrsta straumöndin sem hann sér.

Ég verð að viðurkenna að mig hefur alltaf langað að eiga uppstoppað dýr upp í hillu. Hún er virkilega flott hérna uppi í hillu.... en ég verð að stefna ótrauður að markmiðinu og láta öndina þegar ég fæ gott tilboð. Þessi önd er til margra hluta nytsamleg. Hún er virkilega fínt stofustáss, frábær andleg örvun fyrir smáfólk í barnaherberginu, ómissandi viðbót í lífríkissafn skóla og stofnana, hentar vel á skrifstofur flugfélaga, á skrifborðið í vinnunni, fullkomin jólagjöf fuglaskoðarans, ómetanleg brúðargjöf eða stórglæsileg borðskreyting á villibráðar jólahlaðborðinu.


Ekki hika við að senda mér tilboð.

föstudagur, nóvember 24

Uppfært: Rosaleg skipti á næsta föstudag!!!

med fugl i farteskinuNú fór ég aldeilis fram úr mér. Í einskæru spenningskassi skrifaði ég að næstu skipti færu fram í dag, því mér fannst vera fimmtudagur í gær. Það var ekki rétt hjá mér heldur stendur það til næsta föstudag. Ég biðst innilega afsöknunar á þessu rugli. Færsla gærdagsins hefur verið leiðrétt eftir þessu:

Nú eru aldeilis skemmtileg skipti framundan. Á næsta föstudag morgun mun öðlingurinn Gísli Hvanndal gera sér sérstaka ferð frá Ólafsfirði til Reykjavíkur til þess að skipta við mig (svo ætlar hann reyndar að kíkja á einhverja tónleika um kvöldið, víst hann verður í bænum).

Við munum því hittast seinnipartinn á föstudag og innsigla skiptin með handabandi og myndatöku. Ohhh hvað ég hlakka til.

fimmtudagur, nóvember 16

Tilboð sem ekki er hægt að hafna


Ég hef fengið alveg hreint ótrúlega gott tilboð sem mun færa mér einstakan hlut, sem á engan sinn líkann, það er enginn nákvæmlega eins hlutur til! Nú er bara að reyna að finna bestu (stystu og fljótlegustu) leiðina til þess að hitta manninn til þess að skipta. Vonandi finnum við út úr því sem fyrst.

mánudagur, nóvember 13

Næstu skipti fljótleg framundan

Ég vil byrja að þakka blaðamanni Fréttablaðsins fyrir gott viðtal sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Það eina sem mér þykir miður við það er að eitt aðal atriðið gleymdist, að hafa link á skiptibloggið, en aðal atriðið var jú að vekja athygli á því!

Ég sagðist skyldi taka formlega ákvörðun um næstu skipti í dag. Ég hef fengið nokkur tilboð og eitt þeirra stendur tvímælalaust uppúr. Þessi manneskja er tilbúin til þess að leggja töluvert á sig til að framkvæma skiptin, en vandamálið er að vegna landfræðilegrar staðsetningar geta skiptin ekki farið fram í eigin persónu hér í bænum fyrr en eftir 2 vikur. Þar sem tvær vikur er langur tími vil ég opna aftur fyrir tilboð í vekjara klukkuna. Ef ég fæ ekkert betra tilboð munu næstu skipti fara fram undir lok mánaðarins.

Skrif um skiptileikinn í fréttablaðinu

Eftirfarandi viðtal birtist í Fréttablaðinu: "Hugmyndin er fengin frá manninum í Bandaríkjunum sem byrjaði með eina rauða bréfaklemmu í höndunum og náði með skiptum að fá fyrir hana hús," segir Óskar Þór Þráinsson um framtak sitt, en hann heldur nú úti bloggsíðu um nokkuð merkilegt verkefni. Óskar vill á tæpu ári ná að fá ferð til Þýskalands í skiptum fyrir hestalyklakippu.
"Ég er fátækur námsmaður og hef lengi verið á leiðinni að heimsækja systur mína í Þýskalandi, en aldrei komist. Mér datt í hug að fara af stað með íslenskan skiptileik, og vil komast út næsta sumar," sagði Óskar, sem hefur nú þegar gert þrjú skipti.
Hestalyklakippunni skipti hann fyrir kaffikort upp á tvo fría kaffidrykki, því næst fékk hann hitamál fyrir kaffi sem hann skipti fyrir forláta vekjaraklukku. "Hugmyndafræðin á bak við þetta er sú að menn meta hluti misjafnlega. Hingað til hafa öll skiptin gagnast fólki að einhverju leyti, en fyrir mig skiptir máli að fá jafn veglegan eða veglegri hlut," sagði Óskar, sem segir nokkur tilboð hafa borist í hvern hlut. "Það stefnir í mjög skemmtileg skipti næst, ef allt gengur eftir," sagði Óskar, sem tekur á móti tilboðum í vekjaraklukkuna til 12. nóvember. Hann er bjartsýnn á að ná markmiði sínu. "Ekki spurning. Annars hefði ég aldrei lagt í þetta." - sun

miðvikudagur, nóvember 8

Skiptu jafnt!

Það eru margir sem ekki eru vanir að skiptast á hlutum. Þeir sem vilja æfa sig geta kíkt á vef Námsgagnastofnun.
Ég er orðinn mjög spenntur fyrir næstu skiptum og hlakka til að fá fleiri tilboð í klukkuna.


Athugið að þeir sem eiga erfitt með að muna slóðina að þessari síðu geta líka farið í gegnum lénið skiptileikurinn.tk

miðvikudagur, nóvember 1

Nú er að færast fjör í leikinn!


Ég þakka hvatningarorð sem fallið hafa í minn garð. Ég hef mikla trú á að með ykkar hjálp takist mér áætlunarverk mitt. Tilgangurinn er auðvitað að allir sem skiptast á hlutum hafi gaman að og eignist skemmtilegan eða gagnlega hlut. Ég tek við tilboðum í klukkuna til 12.nóvember, en þann 13.mun ég taka ákvörðun um næstu skipti. Ég minni enn og aftur á að láta hugmyndaflugið ráða. Eins manns dót er annars manns gull. London vekjaraklukkan hefur marga eftirsókna eiginleika. Félagi minn, Stefán Arason orðaði þetta mjög vel: "Svo segir sagan að þessi vekjaraklukka hafi þann stórfenglega eiginleika að hún geti vekið þig á öllum tímum sólahringsins, þar að segja ef þú ert sofandi og mundir að stilla klukkuna"

Segðu mér þitt álit (hægt er að skrifa comment sem anonymous eða other)

þriðjudagur, október 31

Google Reader og rugl


Ég uppgötvaði um daginn mjög sniðuga þjónustu sem Google býður uppá. Þjónustan kallast "Google Reader". Þessi þjónusta gerir manni kleyft að fylgjast með fréttaveitum og bloggum sem bjóða upp á streymi (RSS, ATOM, eða einhverskonar "feed"). Ég mæli með þessari þjónustu til þess að fylgjast með skiptileiknum og hafa yfirsýn yfir fjölmörg blogg sem þið skoðið. Það er einfalt að skrá sig fyrir þjónustunni og síðan þarf bara að fara í "Add subscription" og slá inn slóðinni: http://einlitillyklakippa.blogspot.com/

Ég hef fengið fregnir af því að einstaka vélar eigi erfitt með að skoða bloggið og smella á linka (sérstaklega í tölvuverum HÍ). Ég hef ekki fundið út úr vandamálinu, en á meðan lausn er ekki í augsýn hef ég fjölgað færslunum sem sjáanlegar eru á forsíðunni til þess að hægt sé að lesa þær.

miðvikudagur, október 25

Skiptileikurinn opnar eigin raus

Kæru vinir og aðrir gestir. Eftir nokkurt hark og vandræði hefur þessi vefur einlitillyklakippa.blogspot.com nú formlega verið opnaður. Tilgangur síðunnar er að veita allar upplýsingar um gang mála í skiptileiknum og auðvelda yfirsýn fyrir þá sem vilja fylgjast vel með.

Eins og allir vita þá er markmið mitt er að skipta smám saman úr einni lítilli hestalyklakippu upp í flug og bíl ferð til Þýskalands. Ég býð fram ákveðinn hlut. Einhver sem hefur áhuga á hlutnum býður mér annan álíka hlut eða verðmætari.Ég mun síðan bjóða nýja hlutinn til skiptana og þannig koll af kolli uns markmiðinu er náð

Eina leiðin fyrir mig til þess að ná þessu markmiði mínu er að allir hjálpi mér að láta þetta fréttast. Því fleiri sem vita af þessu, því líklegra er að ég fái góð tilboð í skipti. Bloggið um nýju síðuna, sendið póst, talið um þetta í vinnunni og skólanum, spekúlerið, spáið og sendið mér auðvitað gott tilboð ;)

Látið heyra í ykkur!

þriðjudagur, október 17

Þriðju skiptin

Það var á föstudagsmorgni í september að ég vaknaði um 9 leytið. Mér krossbrá því ég átti að mæta í skólann klukkan 8:20. Ég hugsaði með mér að það gengi ekki að vera bara með vekjaraklukku í símanum. Það ótrúlega gerðist síðan að síðar um daginn hafði Hallveig Rúnarsdóttir, stórsöngkona, samband við mig og bauð mér forláta svarta Quartz vekjaraklukku í skiptum fyrir Sindra hitakönnuna. Hana vantaði könnu til að halda kaffinu sínu heitu og ég hafði einmitt verið að hugsa um vekjaraklukkur um morguninn. Við ákváðum skiptin og ég sagðist skyldi reyna að hitta á hana fljótlega. Síðan er liðinn meira en mánuður. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við náðum ekki saman fyrr en loksins í dag.

Ég myndi gjarnan vilja halda þessari stílhreinu vekjaraklukku til að vekja mig á morgna, en ég hef markmiðið að leiðarljósi og býð því klukkuna til skiptana. Þetta er forlát svört vekjaraklukka með Quartz gangverki. Hún er merkt framleiðandanum London(r). Ekki tókst að hafa upp á framleiðandanum en hver veit nema þessi klukka sé safngripur? Klukkan passar fullkomlega á hvaða náttborð sem er. London klukkan býður upp á ótal möguleika, hægt er að stilla tímann, stilla vekjaratíma, slökkva og kveikja á vekjaranum og hún segir þér alltaf hvað tímanum líður. Hún getur einnig farið vel í stóra vasa. Það besta við hana er að hún gengur fyrir einu 1.5v AA batteríi sem FYLGIR MEÐ!!! Og batteríið má reyndar nota á óendanlega marga vegu, ef út í það er farið.
Ef þig vantar ekki vekjaraklukku af einhverjum undarlegum ástæðum er London klukkan fullkomin afmælis- og tækifærisgjöf til vina, ættingja og kunningja, frábær til að taka með í sumarbústaðinn í vetur, gæti mögulega skapað góðar tekjur á e-bay og frábær sem brúðkaupsgjöf.

Nú er um að gera að vera fyrstur til þess að tryggja sér þessa einstöku klukku. Látið hugmyndaflugið og bjóðið í staðin hlut jafn veglegan eða veglegri hlut sem þið haldið að gæti gagnast öðrum. Hafið samband við mig gegnum oskar(hjá)karlmenn.is eða síma 659-8000.




Ég vil þakka vinum og kunningjum sem hafa verið duglegir við reka á eftir mér í skiptunum. MSN og SMS sendingar eins og "jæja, ætlaðirðu ekki að skipta í þessari viku" og "hvað er þetta með þig, ætlarðu ekki að fara að skipta" hafa stutt við bakið á mér.

Skiptisöguna alla má sjá hér á hægri hlið.

miðvikudagur, september 20

Og sagan heldur áfram

Nú í haust lenti ég í klassískri kreppu. Tímaleysi og þar af leiðandi bloggleysi. Það þýðir þó ekki að skiptaleikurinn hafi legið niðri á meðan. Mér hafa borist tilboð í sindra könnuna og eftir að hafa vegið og metið þau er hér með staðfest að næstu skipti munu fara fram á allra næstu dögum. Hluturinn sem um ræðir er nauðsynlegur inn á hverju heimili. Fylgist með og verið fyrst til að bjóða í þennan nytsama hlut!

föstudagur, ágúst 18

Special Offer for you, my friend!


Sindra kannan hefur vakið þó nokkra lukku meðal vina minna. Ég er margoft spurður hvað ég ætli nú að fá fyrir könnuna og hvað ég vilji helst. Svarið er alltaf það sama. Ég vil spennandi og skemmtilegan veglegan hlut frá einhverjum sem vantar góða hitakönnu. Ég hef þegar fengið nokkur tilboð og vonast til að fá nokkur fleiri áður en ég tek endanlega ákvörðun. Ég hef sett mér það tímamark að ganga frá næstu skiptum strax í byrjun næsta mánaðar. Ég er orðinn mjög spenntur fyrir næstu skiptum, en því miður get ég ekki skipt við alla sem vilja vera með í leiknum.

Á miðvikudag voru stórtíðindi í fjölskyldunni þegar Valur Kári átti 2 ára afmæli. Ótrúlegt hvað tíminn líður fljótt, ekki satt? Þetta er nú búin að vera talsverð vinna fyrir mig í meira en tvö ár til að ná þessum áfanga, en ég held að allir geti verið sammála því að mér hefur tekist vel til að móta hann, enda er hann yndislegur einstaklingur eins og mamma sín. Það er ekki verra því ég er voða skotinn í þeim báðum.

fimmtudagur, ágúst 10

Legðu frá þér verkfærin

Ég var rétt í þessu að fá fregnir að því að í hádeginum föstudaginn 11.Ágúst opnar Sindri glæsilega verslun fyrir fagmenn að Viðarhöfða 6, föstudaginn 11.ágúst. Af því tilefni bjóða þeir í hamborgara og gos milli 11.30 og 13.30 þennan dag í nýju versluninni. Í leiðinni langar þá að kynna okkur nýjustu verkfærin frá DeWalt og leyfa okkur að prófa þau.

Þau hlakka til að sjá okkur

Ætli þetta sé dulbúin hátíð til að fagna því að Sindra hitakanna sé í boði í skiptileiknum mínum?(Ekki spurning!)

fimmtudagur, júlí 27

Önnur skiptin yfirstaðin


Nú eru hjólin farin að snúast. Í gær barst mér tilboð í tvö fullgötuð kaffikort frá Café Roma sem ég gat ekki hafnað. Ásgeir Ólafsson, tæknifræðingur bauð mér að fá í staðin glæsilegt stál-hitamál merkt SINDRA. Ásgeir hefur átt þetta mál í nokkurn tíma en átti ekkert kaffi í það. Ég tók tilboðinu snögglega og við hittumst í gærkvöldi til að ganga formlega frá skiptunum.

Hitamálið er hið gerðarlegasta, tekur um 0.4l af vökva og er þeim eiginleika gætt að halda vökvanum heitum eða köldum mun lengur en í venjulegu glasi. Málinu fylgir lok með drykkjaropi til að hámarka hita/kulda temprun og sterklegt handfang til að auðvelda aðkomu málsins að munni.
Það gefur auga leið að notkunarmöguleikarnir á þessu máli eru óendanlegir. Hægt er að: fylla málið af kaffi og sötra lengi á því í vinnunni við yfirferð trúnaðarskjala, taka það með í göngu yfir Fimmvörðuháls og drekka kakó úr því þegar komið er í Þórsmörk, hella frískandi svaladrykk í það til að kæla sig niður eftir sólbað á Austurvelli (ef það verða fleiri sólardagar í sumar!!!), gefa málið í afmælis- eða brúðkaupsgjöf eða blanda sér hrærðan en ekki hristan martini eftir erfiðan vinnudag án þess að konan sjái hvað þú sért að drekka.

Ég vil því að gefnu tilefni taka það fram að þetta er ekkert grín. Ég mun stefna ótrauður að því markmiði sem ég hef sett. Ég hef rétt um ár til stefnu til þess að takast þetta og ég skal... Ég meina'ða, hver hefur ekki not fyrir stál-hitamál?

Hver vill skipta?

miðvikudagur, júlí 26

Fyrsta skiptið

Fyrstu formlegu skiptin hafa nú farið fram. Það var Hörður Lárusson, grafískur hönnuður sem bauð mér tilboð sem ég gat ekki hafnað. Í skiptum við litla hestalyklakippu bauð hann mér tvö fullgötuð kaffikort úr Roma Café. Hvort kortið jafngildir kaffidrykk að eigin vali á þessu kaffihúsi. Ég var að sjálfsögðu himinn lifandi yfir þessu kostaboði. Ég fór til hans í gær og við skiptumst formlega á hlutum með handabandi og myndartöku.

Ég hefði sjálfur ekkert á móti að kíkja á kaffihús með konunni og sötra á kaffi latte en ég verð að halda áfram ótrauður að markinu og hef ég því nú í boði tvö fullgötuð kaffikort til skiptanna.

Roma Café er huggulegt kaffihús og bakarí á Rauðarárstíg 8 og í Kringlunni gengt Eymundsson. Það liggur ljóst við að tveir kaffidrykkir að eigin vali geta komið sér vel og óhætt að segja að möguleikarnir séu endalausir. Maður gæti: farið snemma að morgni eftir svefnlitla nótt og skellt í sig tveimur tvöföldum esspresso, komið sér fyrir heila kvöldstund og lesið "Grámosinn Glóir" eftir Thor Vilhjálmsson yfir Amaretto, boðið yndislega hjartaknúsaranum/beibinu sem þú ert búin(n) að vera skotin(n) í svo lengi upp á Frappuccino og eitthvað skemmtilegt á eftir, hringt í Þingmanninn þinn og boðið honum að ræða bæjarpólitíkina yfir Irish Coffee eða gefið kortin í afmælis- eða brúðkaupsgjöf. Þeir eru fáir sem myndu hafna góðu kaffiboði.

Hver vill skipta?

þriðjudagur, júlí 25

Íslensk skipti

Hafið þið heyrt um manninn sem byrjaði með eina rauð bréfaklemmu, fór svo og skipti við fólk og endaði með einbýlishús í Canada?

Þetta hljómar eins og lélegur brandari, en þetta er dagsönn saga. Kíkið á http://oneredpaperclip.blogspot.com/. Frekar magnað.

Þessi ótrúlegi maður, Kyle MacDonald, fékk þessa brjálæðislegu hugmynd og lét vaða. Hann segir hugmyndina koma frá því hann var lítill þegar hann og vinir hans léku áþekkan leik.

Maður getur ekki annað en dáðst að svona mönnum og harmað það að maður sé ekki svona mikill snillingur. Í kjölfar umfjöllunar um skiptileik MacDonalds viðsvegar um heim hefur bylgja skiptileikja farið yfir fjölmörg lönd í heiminum. MacDonald sjálfur kvetur alla sem rönd geta reyst að reyna eigin útgáfur af þessu nýasta æði.Ég hef áveðið að fylgja fordæmi þessa snillings.

Þar sem Ísland er örlítið minni markaður en Bandaríkin hef ég ákveðið að byrja með mun veglegri hlut en bréfaklemmu og setja markmiðið aðeins lægra.

Svona virkar skiptileikurinn í stuttu máli:

Ég býð fram ákveðinn hlut. Einhver sem hefur áhuga á hlutnum býður mér annan hlut sem er álíka verðmætur eða verðmætur. Það skal tekið fram að verðmætamat er snúinn hlutur. Það sem er drasl fyrir einum er fjársjóður fyrir öðrum. Þegar fæ sent tilboð sem mér lýst vel á hef ég samband við viðkomandi og mælir mér mót við hann. Öll skipti skulu fara fram í eigin persónu og verða framkvæmd með formlegu handabandi og myndatöku. Síðan mun ég bjóða nýja hlutinn til skipta þangað til ég fæ gott tilboð og þannig koll af kolli.

Hluturinn sem ég hef ákveðið að bjóða fram er glæsilegur, svo til ónotaður lyklakippuhringur. Á honum er mynd af íslenskum hesti og skrifað "Ísland" og "Hestur" bæði á þýsku og ensku. Þessi lyklakippa er tilvalinn til að geyma húslykla, bíllykla, hjólalykla, kamarlykla eða vera til skrauts á fatnaði, veggjum eða borðskreitingum. Lyklakippuna væri einnig hægt að gefa útlenskum ferðamönnum, vinum, ættingjum, til góðgerðarmála, í brúðkaupsgjafir eða af hvaða tilefni sem er.

Markmið mitt er að skipta þangað til ég enda með flug og bíl ferð (fyrir 2 fullorðna og 1 barn) til Þýskalands. Af hverju flugferð til Þýskalands spyrja sumir. Jú, ég er líklegast sá eini í fjölskyldu minni sem ekki hef farið í heimsókn til systur minnar sem er búsett þar. Hún hefur búið í Freiburg lengi, en nú styttist óðum í að hún flytji heim. Allar mínar tilraunir og vonir til að komast út hafa ekki gengið eftir. Nú þarf ég að taka til minnar ráða til þess að láta þessa ósk mína rætast.

Hver vill byrja að skipta við mig?