fimmtudagur, júlí 27

Önnur skiptin yfirstaðin


Nú eru hjólin farin að snúast. Í gær barst mér tilboð í tvö fullgötuð kaffikort frá Café Roma sem ég gat ekki hafnað. Ásgeir Ólafsson, tæknifræðingur bauð mér að fá í staðin glæsilegt stál-hitamál merkt SINDRA. Ásgeir hefur átt þetta mál í nokkurn tíma en átti ekkert kaffi í það. Ég tók tilboðinu snögglega og við hittumst í gærkvöldi til að ganga formlega frá skiptunum.

Hitamálið er hið gerðarlegasta, tekur um 0.4l af vökva og er þeim eiginleika gætt að halda vökvanum heitum eða köldum mun lengur en í venjulegu glasi. Málinu fylgir lok með drykkjaropi til að hámarka hita/kulda temprun og sterklegt handfang til að auðvelda aðkomu málsins að munni.
Það gefur auga leið að notkunarmöguleikarnir á þessu máli eru óendanlegir. Hægt er að: fylla málið af kaffi og sötra lengi á því í vinnunni við yfirferð trúnaðarskjala, taka það með í göngu yfir Fimmvörðuháls og drekka kakó úr því þegar komið er í Þórsmörk, hella frískandi svaladrykk í það til að kæla sig niður eftir sólbað á Austurvelli (ef það verða fleiri sólardagar í sumar!!!), gefa málið í afmælis- eða brúðkaupsgjöf eða blanda sér hrærðan en ekki hristan martini eftir erfiðan vinnudag án þess að konan sjái hvað þú sért að drekka.

Ég vil því að gefnu tilefni taka það fram að þetta er ekkert grín. Ég mun stefna ótrauður að því markmiði sem ég hef sett. Ég hef rétt um ár til stefnu til þess að takast þetta og ég skal... Ég meina'ða, hver hefur ekki not fyrir stál-hitamál?

Hver vill skipta?

Engin ummæli: