laugardagur, desember 9

Skiptileikurinn í Helgarblaði DV


Það er viðtal við mig og umfjöllun um skiptileikinn í nýjasta helgarblaði DV. Hún er á næst öftustu síðu. Þetta er ágætis umfjöllun og kemur helstu aðalatriðum á framfæri. Eini gallinn er að myndast ekkert sérstaklega vel, þarna á bak við öndina... en hún er nú líka algjör senuþjófur.

Þeir sem vilja fræðast betur um tilgang og markmið skiptileiksins er bent á að lesa fyrstu færslurnar hér á síðunni.


Það er einnig hægt að smella á myndirnar hér til hliðar til að skoða betur skiptin sem farið hafa fram.


Ég vil leggja áherslu á að eins manns dót er annars manns gull. Hver kannast ekki við að eiga fulla geymslu og kjallara af allskonar gagnlegum hlutum sem liggja þar ónotaðir. Ef þig langar að eiga uppstoppaða straumönd, að gefa fuglaáhugamanni fullkomna jólapakkann eða vantar skemmtilega brúðkaupsgjöf skaltu líta í kringum þig og senda mér síðan gott tilboð.

föstudagur, desember 1

Fjórðu skiptin

Í dag lét ég London klukkuna af hendi fyrir einstakan grip. Gísli Hvanndal skellti sér í bíltúr frá Ólafsfirði til þess að skipta við mig. Honum fannst þetta svo bráðfyndin og skemmtilega hugmynd og vildi endilega taka þátt í þessu.Hann færði mér stórglæsilega uppstoppaða Straumönd sem stendur stolt á steini. Þetta er hinn myndarlegasti gripur, algjörlega einstakur, enda gerður úr einstöku dýri. Öndin gerði strax mikla lukku hjá litla stráknum mínum, enda er þetta líklegast fyrsta straumöndin sem hann sér.

Ég verð að viðurkenna að mig hefur alltaf langað að eiga uppstoppað dýr upp í hillu. Hún er virkilega flott hérna uppi í hillu.... en ég verð að stefna ótrauður að markmiðinu og láta öndina þegar ég fæ gott tilboð. Þessi önd er til margra hluta nytsamleg. Hún er virkilega fínt stofustáss, frábær andleg örvun fyrir smáfólk í barnaherberginu, ómissandi viðbót í lífríkissafn skóla og stofnana, hentar vel á skrifstofur flugfélaga, á skrifborðið í vinnunni, fullkomin jólagjöf fuglaskoðarans, ómetanleg brúðargjöf eða stórglæsileg borðskreyting á villibráðar jólahlaðborðinu.


Ekki hika við að senda mér tilboð.