þriðjudagur, júlí 25

Íslensk skipti

Hafið þið heyrt um manninn sem byrjaði með eina rauð bréfaklemmu, fór svo og skipti við fólk og endaði með einbýlishús í Canada?

Þetta hljómar eins og lélegur brandari, en þetta er dagsönn saga. Kíkið á http://oneredpaperclip.blogspot.com/. Frekar magnað.

Þessi ótrúlegi maður, Kyle MacDonald, fékk þessa brjálæðislegu hugmynd og lét vaða. Hann segir hugmyndina koma frá því hann var lítill þegar hann og vinir hans léku áþekkan leik.

Maður getur ekki annað en dáðst að svona mönnum og harmað það að maður sé ekki svona mikill snillingur. Í kjölfar umfjöllunar um skiptileik MacDonalds viðsvegar um heim hefur bylgja skiptileikja farið yfir fjölmörg lönd í heiminum. MacDonald sjálfur kvetur alla sem rönd geta reyst að reyna eigin útgáfur af þessu nýasta æði.Ég hef áveðið að fylgja fordæmi þessa snillings.

Þar sem Ísland er örlítið minni markaður en Bandaríkin hef ég ákveðið að byrja með mun veglegri hlut en bréfaklemmu og setja markmiðið aðeins lægra.

Svona virkar skiptileikurinn í stuttu máli:

Ég býð fram ákveðinn hlut. Einhver sem hefur áhuga á hlutnum býður mér annan hlut sem er álíka verðmætur eða verðmætur. Það skal tekið fram að verðmætamat er snúinn hlutur. Það sem er drasl fyrir einum er fjársjóður fyrir öðrum. Þegar fæ sent tilboð sem mér lýst vel á hef ég samband við viðkomandi og mælir mér mót við hann. Öll skipti skulu fara fram í eigin persónu og verða framkvæmd með formlegu handabandi og myndatöku. Síðan mun ég bjóða nýja hlutinn til skipta þangað til ég fæ gott tilboð og þannig koll af kolli.

Hluturinn sem ég hef ákveðið að bjóða fram er glæsilegur, svo til ónotaður lyklakippuhringur. Á honum er mynd af íslenskum hesti og skrifað "Ísland" og "Hestur" bæði á þýsku og ensku. Þessi lyklakippa er tilvalinn til að geyma húslykla, bíllykla, hjólalykla, kamarlykla eða vera til skrauts á fatnaði, veggjum eða borðskreitingum. Lyklakippuna væri einnig hægt að gefa útlenskum ferðamönnum, vinum, ættingjum, til góðgerðarmála, í brúðkaupsgjafir eða af hvaða tilefni sem er.

Markmið mitt er að skipta þangað til ég enda með flug og bíl ferð (fyrir 2 fullorðna og 1 barn) til Þýskalands. Af hverju flugferð til Þýskalands spyrja sumir. Jú, ég er líklegast sá eini í fjölskyldu minni sem ekki hef farið í heimsókn til systur minnar sem er búsett þar. Hún hefur búið í Freiburg lengi, en nú styttist óðum í að hún flytji heim. Allar mínar tilraunir og vonir til að komast út hafa ekki gengið eftir. Nú þarf ég að taka til minnar ráða til þess að láta þessa ósk mína rætast.

Hver vill byrja að skipta við mig?

Engin ummæli: