mánudagur, mars 12

Leik lokið


Öndin er flogin á brott. Eftir talsverðar athuganir, auglýsingar og fyrirhöfn fékk ég loksins áhugavert tilboð. Ég gat því miður ekki frestað lengur að klára leikinn því nú er sannarlega kominn tími til þess að bóka flug til systur minnar í Þýskalandi.

Mér bauðst nýverið að ljúka þessum leik með smávegis áhættu en á skemmtilegan hátt. Komið var að máli við mig frá Oddfellow stúku í Reykjavík. Þeir halda árlega svokallað Kúttmagakvöld sem gengur annarsvegar út á mat og drykk og hinsvegar út á að leggja til fjármagn til að halda við góðgerðamálum reglunnar. Þeir buðu mér að koma með þessa einstöku straumönd á uppboð sem þeir halda á þessu kvöldi. Þar er meðlimum og gestum þeirra boðið upp á málverk og ýmsa veglega muni og þeir sömdu við mig að ef ég kæmi með öndina fengi ég ákveðinn hluta upphæðarinnar og hluti rynni til góðgerðamála. Ég ákvað að slá til. Ég var allur á nálum þegar að uppboðinu kom. Uppboðin hófust og brátt tók upphæðin að hækka. Öndin var slegin í fyrsta, annað og þriðja sinn fyrir hærri upphæð heldur en ég hafði vonast til.

Sökum aðstæðna get ég því miður ekki gefið upp kaupandann eða upphæðina, en ég get sannarlega sagt að þessi upphæð kemur sér virkilega vel. Nú er næsta skrefið að bóka loksins langþráðu ferðina til Freiburgar. Ég skil vel að einhverjum þyki þetta nokkuð snubbóttur endir á stórskemmtilegum leik. Það verður bara að viðurkennast að vinnuálag í náminu síðan fyrir jól hefur haft sitt að segja í eftirfylgni eftir skiptum. En það er hinsvegar staðreynd að þrátt fyrir að ég hafi ekki náð nákvæmlega settu markmiði þá komst ég sannarlega langt. Mér tókst á 8 mánuðum að auka verðgildi lyklakippunnar margfalt sem að lokum skilaði sér sem verulega góð inneign inn í tilætlaða utanlandsferð.

Ég vil þakka sérstaklega öllum sem lögðu hönd á plóg og gera mér þetta kleyft.

p.s. að gefnu tilefni... meðfylgjandi mynd eingöngu til skreytingar

mánudagur, febrúar 12

Ekki af baki dottinn


Það verður að segjast að ég hef aldrei fengið fleiri tilboð í skipti fyrir þessa önd. En það verður líka að segjast að aldrei hafa tilboðin verið eins misjöfn. Ég verð að segja að aðeins eitt þeirra hefur mögulega komið til greina, en því miður hefur sá aðili ekki svarað fyrirspurnum frá mér.

Það kemur á óvart að engin menntastofnun hefur sýnt öndinni áhuga. Ef þið vinnið, þekkið til, eruð í sambandi við/með starfsmanni stofnunar eða fyrirtækis sem býr að ágætu uppstoppuðu dýrasafni væri það vel þegið ef þið mynduð benda þeim aðilum á tilboð mitt. Þetta er kjörin leið til þess að stækka safnið án peningaútláts.

Ég mun gefa öllum kost á að senda mér tilboð í nokkrar vikur. Ef ég fæ ekki frábært tilboð mun ég fara óhefðbundna leið til að halda þessum stórskemmtilega leik áfram... en meira um það síðar.

mánudagur, janúar 8

Gleðilegt ár, jól og allt það


Ég vil byrja á óska öllum lesendum og skiptinautum gleðilegs nýs árs. Nú er ég loksins sannarlega kominn með báðar fætur í bæinn í örlitilli stund milli stríða áður en skólinn hefst aftur síðar í vikunni.

Ég hef lítið mátt vera að því að sinna skiptileiknum yfir prófatímann og jóla/gamlárs-/nýárs hátíðina en ég er hvergi að baki dottinn og held ótrauður áfram að settu marki.

Hér við hlið mér uppi í hillu er enn í boði glæsileg uppstoppuð Straumönd. Hér að neðan er fróðleikur og mynd af Straumöndum fenginn af Íslandsvefnum:

Straumendur eru staðfuglar hér á landi sem verpa um nær allt land. Mest er af þeim á Mývatnssvæðinu en þar er líklega þéttasta straumandarvarp í heimi. Stofnstærð er 2.000-3.000 varppör en 10.000-15.000 fuglar yfir veturinn. Á veturna dvelja straumendur á sjó, helst við brimasamar strendur. Yfir sumartímann er þær helst að finna við straumharðar ár og læki þar sem þær verpa í gjótur eða skorur. Varp er í fyrri hluta júnímánaðar og eggin eru fremur fá, eða 5-9. Straumendur, líkt og aðrar kafendur eru dýraætur sem nærast á lirfum og púpum í straumvatni og ýmsum lindýrum og krabbadýrum í sjó. Straumendur eru alfriðaðar.

Ég óska eftir góðu tilboði

laugardagur, desember 9

Skiptileikurinn í Helgarblaði DV


Það er viðtal við mig og umfjöllun um skiptileikinn í nýjasta helgarblaði DV. Hún er á næst öftustu síðu. Þetta er ágætis umfjöllun og kemur helstu aðalatriðum á framfæri. Eini gallinn er að myndast ekkert sérstaklega vel, þarna á bak við öndina... en hún er nú líka algjör senuþjófur.

Þeir sem vilja fræðast betur um tilgang og markmið skiptileiksins er bent á að lesa fyrstu færslurnar hér á síðunni.


Það er einnig hægt að smella á myndirnar hér til hliðar til að skoða betur skiptin sem farið hafa fram.


Ég vil leggja áherslu á að eins manns dót er annars manns gull. Hver kannast ekki við að eiga fulla geymslu og kjallara af allskonar gagnlegum hlutum sem liggja þar ónotaðir. Ef þig langar að eiga uppstoppaða straumönd, að gefa fuglaáhugamanni fullkomna jólapakkann eða vantar skemmtilega brúðkaupsgjöf skaltu líta í kringum þig og senda mér síðan gott tilboð.

föstudagur, desember 1

Fjórðu skiptin

Í dag lét ég London klukkuna af hendi fyrir einstakan grip. Gísli Hvanndal skellti sér í bíltúr frá Ólafsfirði til þess að skipta við mig. Honum fannst þetta svo bráðfyndin og skemmtilega hugmynd og vildi endilega taka þátt í þessu.Hann færði mér stórglæsilega uppstoppaða Straumönd sem stendur stolt á steini. Þetta er hinn myndarlegasti gripur, algjörlega einstakur, enda gerður úr einstöku dýri. Öndin gerði strax mikla lukku hjá litla stráknum mínum, enda er þetta líklegast fyrsta straumöndin sem hann sér.

Ég verð að viðurkenna að mig hefur alltaf langað að eiga uppstoppað dýr upp í hillu. Hún er virkilega flott hérna uppi í hillu.... en ég verð að stefna ótrauður að markmiðinu og láta öndina þegar ég fæ gott tilboð. Þessi önd er til margra hluta nytsamleg. Hún er virkilega fínt stofustáss, frábær andleg örvun fyrir smáfólk í barnaherberginu, ómissandi viðbót í lífríkissafn skóla og stofnana, hentar vel á skrifstofur flugfélaga, á skrifborðið í vinnunni, fullkomin jólagjöf fuglaskoðarans, ómetanleg brúðargjöf eða stórglæsileg borðskreyting á villibráðar jólahlaðborðinu.


Ekki hika við að senda mér tilboð.