mánudagur, mars 12

Leik lokið


Öndin er flogin á brott. Eftir talsverðar athuganir, auglýsingar og fyrirhöfn fékk ég loksins áhugavert tilboð. Ég gat því miður ekki frestað lengur að klára leikinn því nú er sannarlega kominn tími til þess að bóka flug til systur minnar í Þýskalandi.

Mér bauðst nýverið að ljúka þessum leik með smávegis áhættu en á skemmtilegan hátt. Komið var að máli við mig frá Oddfellow stúku í Reykjavík. Þeir halda árlega svokallað Kúttmagakvöld sem gengur annarsvegar út á mat og drykk og hinsvegar út á að leggja til fjármagn til að halda við góðgerðamálum reglunnar. Þeir buðu mér að koma með þessa einstöku straumönd á uppboð sem þeir halda á þessu kvöldi. Þar er meðlimum og gestum þeirra boðið upp á málverk og ýmsa veglega muni og þeir sömdu við mig að ef ég kæmi með öndina fengi ég ákveðinn hluta upphæðarinnar og hluti rynni til góðgerðamála. Ég ákvað að slá til. Ég var allur á nálum þegar að uppboðinu kom. Uppboðin hófust og brátt tók upphæðin að hækka. Öndin var slegin í fyrsta, annað og þriðja sinn fyrir hærri upphæð heldur en ég hafði vonast til.

Sökum aðstæðna get ég því miður ekki gefið upp kaupandann eða upphæðina, en ég get sannarlega sagt að þessi upphæð kemur sér virkilega vel. Nú er næsta skrefið að bóka loksins langþráðu ferðina til Freiburgar. Ég skil vel að einhverjum þyki þetta nokkuð snubbóttur endir á stórskemmtilegum leik. Það verður bara að viðurkennast að vinnuálag í náminu síðan fyrir jól hefur haft sitt að segja í eftirfylgni eftir skiptum. En það er hinsvegar staðreynd að þrátt fyrir að ég hafi ekki náð nákvæmlega settu markmiði þá komst ég sannarlega langt. Mér tókst á 8 mánuðum að auka verðgildi lyklakippunnar margfalt sem að lokum skilaði sér sem verulega góð inneign inn í tilætlaða utanlandsferð.

Ég vil þakka sérstaklega öllum sem lögðu hönd á plóg og gera mér þetta kleyft.

p.s. að gefnu tilefni... meðfylgjandi mynd eingöngu til skreytingar