föstudagur, nóvember 24

Uppfært: Rosaleg skipti á næsta föstudag!!!

med fugl i farteskinuNú fór ég aldeilis fram úr mér. Í einskæru spenningskassi skrifaði ég að næstu skipti færu fram í dag, því mér fannst vera fimmtudagur í gær. Það var ekki rétt hjá mér heldur stendur það til næsta föstudag. Ég biðst innilega afsöknunar á þessu rugli. Færsla gærdagsins hefur verið leiðrétt eftir þessu:

Nú eru aldeilis skemmtileg skipti framundan. Á næsta föstudag morgun mun öðlingurinn Gísli Hvanndal gera sér sérstaka ferð frá Ólafsfirði til Reykjavíkur til þess að skipta við mig (svo ætlar hann reyndar að kíkja á einhverja tónleika um kvöldið, víst hann verður í bænum).

Við munum því hittast seinnipartinn á föstudag og innsigla skiptin með handabandi og myndatöku. Ohhh hvað ég hlakka til.

fimmtudagur, nóvember 16

Tilboð sem ekki er hægt að hafna


Ég hef fengið alveg hreint ótrúlega gott tilboð sem mun færa mér einstakan hlut, sem á engan sinn líkann, það er enginn nákvæmlega eins hlutur til! Nú er bara að reyna að finna bestu (stystu og fljótlegustu) leiðina til þess að hitta manninn til þess að skipta. Vonandi finnum við út úr því sem fyrst.

mánudagur, nóvember 13

Næstu skipti fljótleg framundan

Ég vil byrja að þakka blaðamanni Fréttablaðsins fyrir gott viðtal sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Það eina sem mér þykir miður við það er að eitt aðal atriðið gleymdist, að hafa link á skiptibloggið, en aðal atriðið var jú að vekja athygli á því!

Ég sagðist skyldi taka formlega ákvörðun um næstu skipti í dag. Ég hef fengið nokkur tilboð og eitt þeirra stendur tvímælalaust uppúr. Þessi manneskja er tilbúin til þess að leggja töluvert á sig til að framkvæma skiptin, en vandamálið er að vegna landfræðilegrar staðsetningar geta skiptin ekki farið fram í eigin persónu hér í bænum fyrr en eftir 2 vikur. Þar sem tvær vikur er langur tími vil ég opna aftur fyrir tilboð í vekjara klukkuna. Ef ég fæ ekkert betra tilboð munu næstu skipti fara fram undir lok mánaðarins.

Skrif um skiptileikinn í fréttablaðinu

Eftirfarandi viðtal birtist í Fréttablaðinu: "Hugmyndin er fengin frá manninum í Bandaríkjunum sem byrjaði með eina rauða bréfaklemmu í höndunum og náði með skiptum að fá fyrir hana hús," segir Óskar Þór Þráinsson um framtak sitt, en hann heldur nú úti bloggsíðu um nokkuð merkilegt verkefni. Óskar vill á tæpu ári ná að fá ferð til Þýskalands í skiptum fyrir hestalyklakippu.
"Ég er fátækur námsmaður og hef lengi verið á leiðinni að heimsækja systur mína í Þýskalandi, en aldrei komist. Mér datt í hug að fara af stað með íslenskan skiptileik, og vil komast út næsta sumar," sagði Óskar, sem hefur nú þegar gert þrjú skipti.
Hestalyklakippunni skipti hann fyrir kaffikort upp á tvo fría kaffidrykki, því næst fékk hann hitamál fyrir kaffi sem hann skipti fyrir forláta vekjaraklukku. "Hugmyndafræðin á bak við þetta er sú að menn meta hluti misjafnlega. Hingað til hafa öll skiptin gagnast fólki að einhverju leyti, en fyrir mig skiptir máli að fá jafn veglegan eða veglegri hlut," sagði Óskar, sem segir nokkur tilboð hafa borist í hvern hlut. "Það stefnir í mjög skemmtileg skipti næst, ef allt gengur eftir," sagði Óskar, sem tekur á móti tilboðum í vekjaraklukkuna til 12. nóvember. Hann er bjartsýnn á að ná markmiði sínu. "Ekki spurning. Annars hefði ég aldrei lagt í þetta." - sun

miðvikudagur, nóvember 8

Skiptu jafnt!

Það eru margir sem ekki eru vanir að skiptast á hlutum. Þeir sem vilja æfa sig geta kíkt á vef Námsgagnastofnun.
Ég er orðinn mjög spenntur fyrir næstu skiptum og hlakka til að fá fleiri tilboð í klukkuna.


Athugið að þeir sem eiga erfitt með að muna slóðina að þessari síðu geta líka farið í gegnum lénið skiptileikurinn.tk

miðvikudagur, nóvember 1

Nú er að færast fjör í leikinn!


Ég þakka hvatningarorð sem fallið hafa í minn garð. Ég hef mikla trú á að með ykkar hjálp takist mér áætlunarverk mitt. Tilgangurinn er auðvitað að allir sem skiptast á hlutum hafi gaman að og eignist skemmtilegan eða gagnlega hlut. Ég tek við tilboðum í klukkuna til 12.nóvember, en þann 13.mun ég taka ákvörðun um næstu skipti. Ég minni enn og aftur á að láta hugmyndaflugið ráða. Eins manns dót er annars manns gull. London vekjaraklukkan hefur marga eftirsókna eiginleika. Félagi minn, Stefán Arason orðaði þetta mjög vel: "Svo segir sagan að þessi vekjaraklukka hafi þann stórfenglega eiginleika að hún geti vekið þig á öllum tímum sólahringsins, þar að segja ef þú ert sofandi og mundir að stilla klukkuna"

Segðu mér þitt álit (hægt er að skrifa comment sem anonymous eða other)